Ávarp stjórnarformanns

 

Á árinu 2018 gekk VÍS í gegnum nokkuð miklar breytingar og um leið urðu þær skipulagsbreytingar og aðgerðir sem ráðist var í á árinu 2017 sýnilegar. Við kynntum nýja fjármagnsskipan og framtíðarsýn og hófum stafræna vegferð af nokkrum þunga. Árangurinn er eitt besta rekstrarár í sögu VÍS. Árangur og framþróun koma ekki af sjálfu sér og víst er að í því síbreytilega umhverfi sem við lifum í auk þeirra áskoranna sem blasa við þarf að vera áræðinn og tilbúinn til að takast á við óhjákvæmilegar breytingar.

 

Traustur grunnrekstur

Á árinu 2018 náðist góður árangur í tryggingarekstrinum þrátt fyrir tjónaþungt ár. Annað árið í röð er samsett hlutfall undir 100%. Markmið stjórnar og félagsins til framtíðar er að ná samsettu hlutfalli í 95%. Það gerist ekki af sjálfu sér og sýnir að sú vinna sem stjórnendur og starfsfólk hefur lagt á sig er að skila sér. Áhersla okkar í framhaldinu verður að einblína enn frekar á áhættugreiningu viðskiptavina og verðlagningu í samræmi við hana. Þá munu forvarnir áfram spila stóran þátt í okkar starfsemi með það að markmiði að draga úr tjónum, félaginu og ekki síst viðskiptavinum til hagsbóta. Iðgjaldavöxtur var áfram kröftugur líkt og síðustu ár en búast má við að það dragi úr honum í takti við minni umsvif í efnahagslífinu.

 

Fjárfestingastarfsemi félagsins gekk einnig mjög vel þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Fjárfestingasafn félagsins og stýring safnsins hefur tekið allnokkrum breytingum þar sem áhættuvilji félagsins hefur verið endurskoðaður og eignasafnið aðlagað honum. Það gefur okkur tækifæri til að gera reksturinn fyrirsjáanlegri og sveiflur í afkomu af fjárfestingastarfsemi ættu samhliða að minnka.

 

Breytt fjármagnsskipan

Áherslur um breytta fjármagnsskipan sem kynntar voru á síðasta aðalfundi voru samþykktar á hluthafafundi félagsins í júní og hefur síðan þá markvisst verið unnið að því að breyta eignasamsetningu félagsins og aðlaga rekstur félagsins að nýjum áherslum. Félagið hefur þannig verið að horfa til þeirra áherslna sem áberandi eru t.d. í rekstri Norrænna tryggingafélaga þar sem áhættusækni í eignasafni er minnkuð og áhersla lögð á að grunnrekstur félagsins standi undir sér. Um árabil hefur það tíðkast að fjárfestingatekjur vegi upp á móti taprekstri af vátryggingastarfsemi hér á landi. Norrænu tryggingafélögin búa almennt yfir minni áhættu í rekstri auk þess sem eigið fé þeirra er lægra og gjaldþolshlutfall hærra.

 

Með traustum tryggingarekstri og lægra samsettu hlutfalli auk þess að minnka  áhættu í eignasafni má lækka eigið fé félagsins og þannig auka vænta ávöxtun hluthafa.  Þannig var hlutafé félagsins lækkað um 1.800 milljónir með því að færa hlutabréf í Kviku banka til hluthafa VÍS. Um leið minnkaði áhætta í eignasafni VÍS og aðgerðin hækkað gjaldþolshlutfall félagsins verulega. Félagið lagði mikla áherslu á að kynna aðgerðina vel fyrir hluthöfum.  Var það mat flestra að þessi aðgerð hafi gengið vel og hafi skilað hluthöfum og félaginu góðri niðurstöðu.

 

Félagið mun halda áfram á þessari leið í skilgreindum og öruggum skrefum. Forsendur fyrir áframhaldandi lækkun hlutafjár eru að samsett hlutfall félagsins síðustu 12 mánuði sé undir 99%, gjaldþolshlutfall félagsins haldist innan skilgreinds áhættuvilja stjórnar sem nú er á bilinu 1,35 til 1,70, lausafjárstaða félagsins verði áfram sterk og að dregið verði úr markaðsáhættu.

 

Það er trú stjórnar og stjórnenda að þessar breytingar á fjármagnsskipan muni skapa viðskiptavinum og ekki síður hluthöfum, öruggara og hefðbundnara tryggingafélag með minni áhættu í eignasafni sínu sem gerir VÍS að áhættuminni fjárfestingakosti.

 

Góðir stjórnarhættir

 

Hjá VÍS er lögð rík áhersla á að þróa stöðugt og styrkja góða stjórnarhætti og að ferli og vinnubrögð samræmist alþjóðlegum viðurkenndum viðmiðum um bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta. Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og vandaðri ákvarðanatöku og stuðla að traustum samskiptum milli hluthafa, stjórnar, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila. VÍS hefur frá árinu 2014 fengið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum af Rannsóknarmiðstöð í stjórnarháttum við Háskóla Íslands. Með viðurkenningunni voru gæði stjórnarhátta félagsins staðfest af óháðum utanaðkomandi aðilum. Þessi viðurkenning var ekki endurnýjuð á árinu 2018 og var þess í stað leitað til reyndra erlendra sérfræðinga á sviði stjórnarhátta til þess að veita félaginu dýpri ráðgjöf um tiltekna þætti í stjórnarháttum félagsins með það fyrir augum að auka gæði þeirra. Við munum áfram vinna með afrakstur þeirra vinnu á næstu misserum og árum með það að markmiði að stjórnarhættir félagsins verði skilvirkir, þjóni félaginu sem allra best og standist ströngustu gæðakröfur sem gerðar eru til sambærilegra fyrirtækja á alþjóðavísu. Þá er stefnt að því að afla á ný vottunar sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum á árinu 2019. Ítarlega er gert grein fyrir stjórnarháttum félagsins í stjórnarháttayfirlýsingu sem fylgir ársskýrslunni.

 

 

VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki

 

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnar og stjórnenda er að vinna að skýrri framtíðarsýn og fylgja henni eftir. Hún þarf að fléttast inn í menningu félagsins og vera leiðarljós í þeim ákvörðunum sem við stöndum frammi fyrir. Nýrri framtíðarsýn fylgja óhjákvæmilega stefnumarkandi ákvarðanir. Í samræmi við það var fyrirkomulag þjónustu við viðskiptavini endurskipulagt og þjónustuskrifstofur sameinaðar í sex öflugar skrifstofur. Markmiðið með breytingunum er að samræma þjónustuna enn betur og laga hana að þörfum viðskiptavina þannig að hún sé einföld, flækjulaus og skilvirk.

 

Stafræna vegferðin  

 

Upplýsingatækni er leiðandi þáttur í rekstri félagsins og við trúum að muni skapa félaginu sérstöðu á markaði. Á árinu voru stigin stór skref í að styrkja enn frekar stoðir félagsins í þeim efnum. Í takti við nýja framtíðarsýn og þær skipulagsbreytingar sem ráðist var í á síðasta ári var einnig blásið til stafrænnar sóknar. Nýjar lausnir litu dagsins ljós en þessi vegferð er rétt að hefjast og ljóst að á komandi árum mun stærsta fjárfesting félagsins liggja þar. Tækifærin eru mikil og því mikilvægt fyrir framþróun félagsins að áherslur og sýn á þessa þróun séu nátengd stefnu félagsins.

 

Miklar breytingar eru framundan í rekstri tryggingafélaga með stór aukinni áherslu á fjártækni sem miðar öll að því að sníða þjónustu og vörur félagsins í enn frekari mæli að þörfum og væntingum viðskiptavina. VÍS hefur alla burði til þess að verða leiðandi fyrirtæki á tryggingamarkaði þegar kemur að nýjungum og ég bind miklar vonir við þá vinnu sem hafist var handa við á árinu. Við búum að yfir 100 ára reynslu í tryggingarekstri. Hana ætlum við að nýta vel en um leið taka þátt í þeirri umbreytingu sem nú á sér stað á tryggingafélögum um heim allan. Við erum undirbúin fyrir nýja og breytta tíma og munum nýta tækifærin og nýja tækni sem framtíðin býður uppá til að efla félagið enn frekar.

 

Vel undir óvissu búin  

 

Flest bendir til hagræðingar í lykilatvinnugreinum eftir mikinn vöxt undanfarinna ára. Til viðbótar eru yfirstandandi kjarasamningar sem líklega mun hafa áhrif á áform fyrirtækja í fjárfestingum. Ef litið er til sögunnar hefur tjónatíðni farið lækkandi með minni hagvexti. Það er ekki sjálfgefið að kólnun í hagkerfinu skili betri árangri hjá tryggingafélögum enda sýnir síðasta ár svo ekki verður um villst að tjón koma aldrei í meðaltölum.

 

Þó að blikur séu á lofti á mörgum sviðum í atvinnulífinu þessa stundina og einhver óvissa í loftinu þá tel ég að félagið hafi sjaldan eða aldrei verið betur í stakk búið í að takast á við framtíðina. Markaðsstaða okkar er sterk, fjárhagur okkar er sterkur, þær skipulagsbreytingar og áherslubreytingar sem við höfum farið í hafa styrkt okkur og stjórnenda- og starfsmannahópur okkar er sterkur og tilbúinn í að halda áfram í að gera gott félag enn betra.  Það er því ljóst að áherslur okkar á næstunni munu verða að halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á og byggja ofan á þann grunn sem við höfum. Það gefur okkur tækifæri til þess að nýta betur þau viðskiptatækifæri sem framundan eru og um leið einbeita okkur að því að bæta þjónustuna, vöruframboð og ný tækifæri þar sem grunnurinn er orðinn sterkari.

 

Þakklæti til starfsfólks

 

Þar sem tryggingar snúast um fólk hefur verið slagorð VÍS í tugi ára. Það eru orð að sönnu. Það er okkar meginhlutverk að vera traustur bakhjarl viðskiptavina okkar í óvissu lífsins. Það er ábyrgðarhlutverk og því er mikilvægt að félagið sé fjárhagslega sterkt og grunnrekstur þess traustur til þess að geta sinnt því hlutverki sem best. En þegar allt kemur til alls þá er þetta spurning um fólk; fólk sem vill góða og sanngjarna þjónustu annarsvegar og fólk sem er tilbúið til að veita þjónustu og lausnir til viðskiptavini hins vegar. Afkoma ársins og árangur í því breytingaferli sem félagið er í er ánægjuefni og vil ég fyrir hönd stjórnar þakka stjórnendum, starfsfólki, viðskiptavinum og hluthöfum fyrir gott starf, góð samskipti og góðan stuðning á árinu. Það er okkar markmið að gefa enn betur í á þessu rekstrarári.

 

Valdimar Svavarsson,

stjórnarformaður

Fyrri síða
Ávarp forstjóra
Næsta síða
Lykiltölur