Ávarp forstjóra

 

Starfsfólk VÍS getur verið stolt af afkomu ársins 2018 enda er árið eitt besta rekstrarár í sögu félagsins. Þetta er frábær árangur ekki síst í ljósi þess að félagið hefur á sama tíma farið í gegnum fjölmargar breytingar árinu sem munu gera okkur kleift að gera enn betur á næstu misserum.

Breytt stefna um fjármagnsskipan og þétt skref í þeirri vegferð, ný framtíðarsýn, endurskipulagning á þjónustuneti, nýjar stafrænar lausnir, mikil fjárfesting í upplýsingatækni og innviðum sem og einföldun ferla og skipulags eru dæmi um þau fjölmörgu mikilvægu verkefni sem við fengumst við á árinu.

 

Snörp og skörp í breytingum

Breytingar sem þessar geta oft reynt á fyrirtæki og verið starfsfólki erfiðar. Stundum er talað um breytingatímabil til að lýsa erfiðum árum á meðan félög undirgangast þróun til að komast á betri stað. Ég trúi hins vegar ekki að það sé einhver endastöð, þróunin er stöðug og verður bara hraðari og hraðari með hverju árinu. Það eina sem er öruggt er að hlutirnir munu breytast. Verkefnið er því stöðugt og allt umlykjandi. Lykillinn að árangri felst því ekki síst í því að vera góð að breytast í takti við nýja tíma og áskoranir. Það er lykilhæfni í þeirri vegferð sem fram undan er og á við alla. Við vinnum því stöðugt að því að innleiða menningu þar sem við erum snörp og skörp, fljót að aðlagast og góð í að breytast.

 

Stafrænt þjónustufyrirtæki

Vegferðin verður að vera skýr og öllum ljós, hvort sem um ræðir hluthafa, stjórn, forstjóra, framkvæmdastjórn, stjórnendur og starfsfólk. Það var því mikilvægt skref að setja niður skýra framtíðarsýn á árinu. Framtíðarsýnin sem stjórn félagsins og stjórnendur mótuðu í sameiningu er að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki.

Við sjáum skýr merki um að viðskiptavinir okkar vilja í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga við okkur samskipti. Okkar trú er að sú eftirspurn muni fara vaxandi og kjarninn í okkar vegferð næstu misseri verður að efla þjónustuna okkar á því sviði, með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Framtíðarsýnin er nú leiðarvísir okkar í öllum þeim ákvörðunum sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi.

Skýr framtíðarsýn kallar óumflýjanlega á ákvarðanir sem eru ekki alltaf auðveldar. Eitt dæmi um það er endurskipulagning á þjónustunetinu okkar. VÍS var áður með útbreiddasta þjónustunet tryggingafélaga á landsbyggðinni með starfstöðvar í einhverri mynd á 29 stöðum víðs vegar um landið. Ákveðið var að þétta þjónustunet VÍS og samræma þjónustuna á færri en öflugri þjónustuskrifstofum. Eftir breytingarnar eru nú sex skrifstofur; á Akureyri, Egilsstöðum Selfossi, Reykjavík, Ísafirði og Sauðárkróki. Sjöunda þjónustuskrifstofan, og sú sem mun vera í hvað örustum vexti til framtíðar, er þjónustugáttin okkar Mitt VÍS. Þar höfum við fjárfest mikið á árinu í bættu viðmóti og fjölgað um leið lausnum fyrir viðskiptavini sem vilja stunda tryggingaviðskipti sín og eiga við okkur samskipti á netinu.

Þessi ákvörðun var ekki óumdeild á meðal viðskiptavina okkar, sérstaklega þeim sem upplifðu að um þjónustuskerðingu væri að ræða. Það er auðvelt að skilja þau sjónarmið. Við þessar breytingar fluttust margir starfsmenn milli starfsstöðva og gátu viðskiptavinir, í flestum tilfellum, eftir sem áður leitað áfram til þeirra sem þeir höfðu verið í samskiptum við. Að auki leggjum við sem fyrr ríka áherslu á að veita öfluga og góða tjónaþjónustu um land allt. VÍS hefur átt í góðu viðskiptasambandi við þjónustuaðila víðsvegar um landið sem annast þjónustu í kjölfar tjóna og þar varð ekki breyting á.

 

Nýjar stafrænar lausnir

Við hófum stafrænu vegferðina okkar á árinu og kynntum tvær nýjar lausnir sem snúa báðar að því að einfalda þjónustuna okkar og gera hana aðgengilegri á netinu. Um mitt árið settum við í loftið rafrænar tjónstilkynningar en nú geta viðskiptavinir okkar tilkynnt öll tjón á netinu. Í desember settum við í loftið aðra stafræna lausn sem gerir viðskiptavinum kleift að tryggja sig á netinu.

Viðbrögð viðskiptavina hafa verið framar vonum, t.a.m. er um þriðjungur tjóna núna tilkynntur á netinu og um 70% ferðatjóna. Verkefnið snýst samt ekki eingöngu um að kynna nýjar lausnir til leiks heldur að breyta menningu 100 ára gamals tryggingafélags sem í auknum mæli hannar lausnir út frá þörfum viðskiptavina sinna en ekki sínum eigin innri ferlum. Við munum halda áfram á árinu 2019 að koma með fleiri nýjungar til að auðvelda viðskiptavinum að sækja þjónustu okkar.

 

Fjármagnsskipan að Norrænni fyrirmynd

Hluthöfum þakka ég samtal og samstarf sem við áttum í tengslum við ákvörðun sem samþykkt var í sumar um nýja fjármagnsskipan félagsins að Norrænni fyrirmynd. Með samþykktinni náðist breið sátt um skynsamleg markmið um eiginfjárhlutfall og áhættu í eignasafninu. Ný fjármagnsskipan hefur það að markmiði að draga úr áhættu fjárfestingasafns sem setur um leið meiri áherslu á vátryggingareksturinn. Fyrsta skrefið á þeirri vegferð var svo tekið í kjölfarið með vel heppnaðri eiginfjárlækkun með afhendingu bréfa í Kviku.

Samtöl við hluthafa, greinendur, fjölmiðlamenn og aðra eru okkur afar mikilvæg. Við höfum sett okkur þá stefnu að ræða reglulega við fólk sem hefur áhuga á félaginu, sérstaklega í kring um uppgjör. Þetta gerum við meðal annars til að kynna vegferðina okkar og áherslur, veita góðar upplýsingar um félagið og þau viðfangsefni sem við erum að vinna að dags daglega. Það er okkur mikið kappsmál að hluthafar og markaðsaðilar fái reglulegar og greinargóðar upplýsingar af gangi mála hjá VÍS.

Á árinu stigum við okkar fyrstu skref í birtingu ófjárhagslegra upplýsinga úr rekstrinum okkar. Það færist sífellt í aukana að fjárfestar horfi til fjölbreyttari mælikvarða til að meta heilbrigði rekstrarins. Við hófum að birta upplýsingar í samræmi við ESG leiðbeiningar NASDAQ kauphallarinnar. Þetta eru upplýsingar um kolefnisfótspor okkar, stjórnarhætti og ýmiskonar samfélagslega þætti. Því til viðbótar skrifuðum við undir Global Compact, alþjóðlegan sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, og staðfestum þar með ætlun okkar að fylgja meginreglum hans. Við stefnum að því að bæta okkur enn frekar á þessu sviði og festa í sessi upplýsingagjöf sem gefur eins skýra og heildstæða mynd af VÍS og kostur er á.

Í takt við vegferð í átt að breyttri fjármagnsskipan tók eignasafn félagsins nokkrum breytingum á árinu en helst má þar nefna að vægi skuldabréfa var aukið í safninu á kostnað hlutabréfa. Talsverðar sveiflur voru á eignamörkuðum á árinu og þriðja árið í röð gáfu innlend hlutabréf af sér lakari ávöxtun en skuldabréf auk þess sem íslenska krónan veiktist í fyrsta sinn síðan 2012. Ávöxtun fjárfestingaeigna VÍS var 8,3% árið 2018 sem var umfram áætlanir félagsins fyrir árið.

 

Traustur bakhjarl í óvissu lífsins

Árið 2018 litaðist af stórtjónum af þeirri stærðargráðu sem við höfum ekki séð um margra ára skeið. Á árinu greiddi VÍS viðskiptavinum sínum tæplega 16 milljarða í tjónabætur.

Við kynningu á rekstrarniðurstöðum ársins 2018 hafa komið fram áhrif tveggja stórtjóna á reksturinn, það er stórbruni í Miðhrauni í Hafnafirði og svo eldur sem kom upp í klæðningu Perlunnar og olli miklu tjóni á húsnæðinu og þeirri starfsemi sem þar var fyrir. Það er afar óvenjulegt að tvö tjón af þessari stærðargráðu verði með svo stuttu millibili og sem dæmi um það er rétt að hafa í huga að síðasta stjórtjón sem kom í bækurnar okkar af þessari stærðargráðu var bruninn í Skeifunni árið 2014. Áhrif brunans í Miðhrauni og Perlunni nema um 2,6 prósentustigum á samsett hlutfall ársins sem endaði í 98,7%.

Það má aldrei gleymast að verkefni okkar er að takast á við tjón af þessu tagi. Okkar tilgangur er fyrst og fremst að vera traustur bakhjarl í óvissu lífsins. Bruninn í Miðhrauni sýndi svo ekki verður um villst hvað það þýðir í raun og veru. Fjölmargir viðskiptavinir okkar urðu fyrir miklu fjárhagslegu, en ekki síður tilfinningalegu tjóni, þegar heilu búslóðirnar urðu eldi að bráð. Þessir viðskiptavinir treystu á að starfsfólk VÍS væri til staðar í þeirri flóknu stöðu sem þar kom upp. Okkar verkefni er að standa undir þeirri ábyrgð. Við sendum fjölmennt teymi starfsmanna til að fínkemba brunarústirnar í leit að verðmætum. Það skilaði sér í endurheimt muna á borð við fjölskyldumyndaalbúm sem tókst að koma í hendur eigenda sinna. Í stóra samhenginu er það eflaust smáræði en við fundum að þetta skipti máli.

 

Við höfum frá árinu 2011 byggt upp ábótasama starfsemi í erlendum endurtryggingum. Iðgjöld af þessari starfsemi nema um einum milljarði króna á ári en samsett hlutfall hefur að meðaltali verið lægra en samsett hlutfall skaðatryggingarekstrar. Árið 2018 var hins vegar þungt líkt og árið 2017 og litaðist af náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta í Japan og skógareldum í Kaliforníu. Okkar þátttaka í endurtryggingum byggir sem fyrr á lítilli þátttöku í stóráhættum og það er okkar mat að hún falli vel að okkar tryggingastarfsemi og sé til þess fallin að lækka samsett hlutfall samstæðunnar að jafnaði.

 

Þrátt fyrir þessi stórtjón skiluðum við sem fyrr segir samsettu hlutfalli undir 100% annað árið í röð. Það verður áfram áskorun að viðhalda þessu en vátryggingastarfsemin er undirstaðan í öllum rekstri okkar og grunnforsenda fyrir þeim markmiðum sem við stefnum að.

 

Forvarnir

Það er stundum sagt að tjón geri ekki boð á undan sér og sannanlega á það oft við. Í okkar huga er það hins vegar ekki algilt og teljum við ma. forvarnir spila þar stórt hlutverk. VÍS hefur ávallt lagt mikið upp úr forvarnarstarfi og unnið náið með viðskiptavinum á þeim vettvangi. Þar stendur upp úr forritið ATVIK sem við höfum þróað til að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að halda utan um skráningu óhappa og ekki síður „næstum óhappa“, en skipulögð skráning á slíkum atburðum er forsenda þess að stunda markvisst forvarnarstarf og koma í veg fyrir slys. Þá erum við stolt af Forvarnaráðstefnu VÍS sem haldin var í 10 skipti þar sem tæplega 300 aðilar koma saman til hlýða á erindi um forvarna- og öryggismál.

 

Að lokum

Á síðasta ári talaði ég um að árið 2018 væri ár mikilla tækifæra. Eins og að ofan er rakið þá get ég með sanni sagt að við höfum ekki setið auðum höndum og árangurinn er sýnilegur. Verkefnið nú er að halda áfram á sömu braut, halda áfram að aðlaga okkur að breyttu umhverfi, halda áfram að skapa menningu sem fagnar góðum breytingum. Markmið okkar er að viðskiptavinir njóti góðrar þjónustu, að starfsfólk sé ánægt í sínum daglegu störfum og að hluthafar séu ánægðir með félag sem byggir á öflugum tryggingarekstri með áhættuminni fjárfestingum. Það er nefnilega þannig að góðum árangri eins og þeim við fögnum nú, verður ekki fylgt eftir svo vel sé nema með þrotlausri vinnu, skipulagi og skýrum markmiðum.

Helgi Bjarnason

Forstjóri

 

Fyrri síða
Stjórnarháttayfirlýsing
Næsta síða
Ávarp stjórnarformanns